Yfirlýsing Félags lýðheilsufræðinga vegna aukins aðgengis að áfengi

Komin er upp alvarleg staða í samfélaginu þar sem aukning hefur orðið á aðgengi að áfengi þvert á lýðheilsustefnu (1) og lög í landinu (2).

Skaðsemi og aðgengi

Skaðsemi áfengis er vel þekkt og ítarlega rannsökuð. Mikilvægt er að beita virkum aðgerðum til að takmarka þann skaða sem áfengisnotkun veldur bæði einstaklingum og samfélaginu í heild. Við verðum að gæta að því að áfengi er ekki venjuleg neysluvara. Aðgangsstýring er ein mikilvægasta leiðin til þess að vernda heilsu einstaklinga og lýðheilsu almennt (3). Ísland hefur verið í öfundsverðri stöðu gagnvart nágrannaríkjum varðandi lög og reglugerðir um sölu og markaðssetningu áfengis.

Rannsóknir frá Bretlandi, Bandaríkjunum, Kanada, Ástralíu og Nýja Sjálandi sýna að gríðarleg aukning hefur orðið í netsölu áfengis ásamt markaðssetningu áfengis í gegnum netmiðla sem erfitt er að stýra (4). Þrátt fyrir að bannað sé með lögum að auglýsa áfengi er það orðið mjög áberandi á samfélagsmiðlum hér á landi frá þeim netverslunum sem nú selja áfengi.

Aðgengi barna og viðkvæmra hópa

Þrátt fyrir að í fyrrgreindum löndum hafi í flestum tilfellum verið ólöglegt að selja og afhenda börnum áfengi í netsölu þá sýna þessar rannsóknir að þau eigi auðvelt með að komast hjá þeim hindrunum, bæði við kaup og við afhendingu (4,5). Hætta er á að þau sem selja áfengi á frjálsum markaði hafi eigin arðsemi fyrst og fremst í huga og séu því ekki æskilegir hagmunaaðilar til að gæta að aðgengi barna og viðkvæmra hópa. Ríkið sem einkaleyfishafi á smásölu áfengis þarf að gæta heildrænna hagsmuna landsmanna og er því í betri stöðu til að framfylgja lýðheilsustefnu stjórnvalda.

Við hvetjum alla alþingismenn til að standa vörð um lýðheilsu í landinu og fögnum framlagi Willum Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra (6) og Sigurðar Inga Jóhannssonar fjármála- og efnahagsráðherra (7) í þessu máli síðustu daga.

Jafnframt tökum við heilshugar undir aðrar yfirlýsingarnar sem birst hafa á síðustu dögum, og með þeim sem styðja þetta mikilvæga málefni með einum eða öðrum hætti, líkt og grein Láru G. Sigurðardóttur, lýðheilsufræðings og læknis. 

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga
Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum
Læknafélag Íslands
Lára G.Sigurðardóttir

Heimildaskrá:

  1. Heilbrigðisráðuneytið. 12.06.2021. ,,Lýðheilsustefna til ársins 2030 samþykkt á Alþingi”. Slóð: https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2021/06/12/Lydheilsustefna-til-arsins-2030-samthykkt-a-Althingi/
  2. Lög um verslun með áfengi og tóbak nr. 86 / 2011 Slóð: https://www.althingi.is/lagas/nuna/2011086.html
  3. WHO Regional Office for Europe. Turning down the alcohol flow. Background document on the European framework for action on alcohol, 2022–2025. Copenhagen: WHO Regional Office for Europe : WHO, 2022.
  4. Online alcohol sales and home delivery: An international policy review and systematic literature review. Colbert, Stephanie, et al. 9, 2021, Health Policy, Vol. 125, pp. 1222-1237.
  5. ADL. Alcohol and drug foundation. The rise of online alcohol delivery. https://cdn.adf.org.au/media/documents/MB_OnlineAlcoholDelivery.pdf. [Online] 
  6. Heilbrigðisráðuneytið. 13.06.2024. ,,Netsala áfengis ógnar grundvallarmarkmiðum lýðheilsu”. Slóð: https://www.stjornarradid.is/default.aspx?pageid=e5cf150d-33a7-11e6-80c7-005056bc217f&newsid=febbc74d-295b-11ef-b885-005056bcde1f
  7. Fjármála- og efnahagsráðuneytið. 11.06.2024. ,,Vegna netsölu áfengis til neytenda”. Slóð: https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2024/06/11/Vegna-netsolu-afengis-til-neytenda/

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *