Hugtakið heilsa er heildrænt í eðli sínu þar sem það nær yfir líkamlega, andlega og félagslega vellíðan samkvæmt formlegri skilgreiningu. Hreyfing og næring eru nær órjúfanlegir þættir sem tengjast öllum þessum þremur víddum heilsu og vellíðanar. Það hvort að við stundum hreyfingu eða ekki tengist líkamlegri og andlegri vellíðan okkar og það sama má segja um næringu. En hvernig skilgreinum við félagslega vellíðan? Félagsleg samskipti eru þar mikilvægur þáttur og jafnvel hafa þau aldrei verið eins mikilvæg eins og nú á tímum COVID-19. Félagsleg samskipti hafa mikið verið rannsökuð í gegnum tíðina og er þá notast við spurningar um það hvort að viðkomandi sé í samskiptum við nána aðila (fjölskyldu, vini, maka) hvort að viðkomandi geti leitað aðstoðar við úrlausn ýmissa verkefna og hvort að viðkomandi geti treyst á aðstoð við tilfinningalega úrvinnslu. Sé það mat einstaklingsins að þessir þættir séu til staðar er sá hinn sami talinn búa við góðan félagslegan stuðning.
Það hvernig félagslegur stuðningur í formi samskipta leiðir af sér bætta heilsu er þó ekki alltaf skýrt og jafnvel umdeilt hvort að um beint orsakasamband sé að ræða. Félagslegur stuðningur hefur áhrif á vellíðan okkar og andlega heilsu. Það að eiga í góðum samskiptum og búa yfir góðu tengslaneti getur hjálpað okkur í daglegu amstri og að komast í gegnum flókin verkefni en þó gætir ákveðins flækjustigs þar sem félagslegur stuðningur gengur ekki aðeins í aðra átt. Það getur vissulega gefið af sér góða líðan að styðja þá sem okkur þykir vænst um, eiga uppbyggileg samtöl við vini og vandamenn, en að sama skapi ef samskipti eru neikvæð í eðli sínu og stuðningur gengur aðeins í aðra átt getur það leitt til örmögnunar, eins og svo gjarnan hefur komið fram þegar ættingjar hafa hreinlega orðið fyrir kulnun vegna mikillar umönnunar og stuðnings sem er þeim ofviða.
En byrjum á því að einblína á jákvæð og uppbyggileg félagsleg samskipti og skoða hvað vísindin segja. Skipta góð samskipti máli þegar kemur að heilsu okkar? Samkvæmt rannsóknum þá er svarið við þessari spurningu já, svo sannarlega. Rannsóknir hafa sýnt að telji einstaklingur sig búa við góðan félagslegan stuðning sé hann líklegri til að upplifa sig við góða heilsu, hefur minni líkur á því að greinast með þunglyndi, gæði svefns eru meiri á meðal þessa hóps, vitræn geta mælist hærri og jafnvel líkur á heilabilun síðar á ævinni eru minni, sé tekinn samanburður við þá sem telja sig skorta félagslegan stuðning. Sé skortur á félagslegum stuðningi verður til lífeðlisfræðilegt viðbragð þar sem að aukið bólgusvar hefur mælst hjá þessum einstaklingum ásamt hækkandi insúlínviðnámi en saman auka þessir tveir þættir áhættuna á sykursýki 2 og hjarta- og æðasjúkdómum. Í heildarsamhenginu mætti því líta svo á að það að vera í virkum, jákvæðum og uppbyggilegum samskiptum sé ákveðið form af heilsurækt. Hér skiptir upplifun einstaklingsins miklu máli og því væri okkur öllum hollt að skoða okkar samskipti við aðra, eru þau jákvæð og uppbyggileg? Hvað get ég gert til að bæta samskiptahæfileika mína ef svo ber undir. Sé samskiptaupplifun okkar góð þá höfum við fjöldann allan af rannsóknum sem sýna jákvæðar heilsufarslegar afleiðingar.
Temjum okkur að vera í góðum samskiptum við fólk sem okkur líður vel með hvort sem það eru vinir, ættingjar eða maki. Hreyfum okkur daglega í að minnsta kosti 30 mínútur og síðast en ekki síst hugum að fjölbreyttu og næringarríku fæði. Með heildrænni sýn á heilsu aukum við heilsufarslegan ávinning svo um munar.